Velkomin á Fróðarstein!
Þessi síða er í vinnslu og er ekki fræðileg
Gestir eru góðfúslega beðnir um að afrita ekkert úr síðunni án leyfis.
Vefsíðan er ekki fræðileg og ekki laus við staðreyndavillur. Þær verða þó leiðréttar um leið og þær koma í ljós!
Á þessari vefsíðu má finna ríflega eitt þúsund íslensk kvæði úr grárri forneskju sem ætluð voru til söngs. Markmið síðunnar er að miðla þessum kvæða-, þjóðlaga- og sönglagaarfi til fróðleiksfúsra. Hér má einnig finna fróðleik um danskvæði frá síðmiðöldum, tvísöngva, þulur, barnagælur, brúðkaupskvæði, drykkjuvísur, draugavísur og huldarmál svo fátt eitt sé nefnt. Hér verður allt kapp lagt á að birta kvæðin í fullri lengd. Í framtíðinni verða einnig nótur og hljóðupptökur af íslenskum þjóðlögum og sönglögum settar hér inn. Þá verður reynt af fremsta megni að skrá upplýsingar um kvæðin sjálf, aldur þeirra, efnistök, höfunda þeirra o.fl.
Kvæðin á síðunni eru birt með nútímastafsetningu nema annað sé tekið fram. Þau eru skrifuð upp úr misgömlu prenti og sökum þess geta rithættir verið mismunandi.
Íslenskir „vikivakar“ og önnur danskvæði, sjá sagnadansa, vikivakakvæði, vikivakaleiki, afmorskvæði, dansþulur, formúluvísur/keðjukvæði, Hundraðvísnabók Vedels, jóladansa, og önnur danskvæði frá síðari öldum.
Höfundur vefsíðu og umsjónarmaður: Þorsteinn Björnsson. S. 845-7057
Vefsíðan er ekki drifin áfram í hagnaðarskyni heldur í staðinn verður fylgt máltækinu „bókvitið verður ekki í askana látið.“
Lausamálstexta og nótnauppskriftir á þessari síðu má ekki afrita með neinum hætti án leyfis
Síðan er í vinnslu
Skáldatal, prentuð kvæðasöfn og handrit:
- Íslensk ljóðasöfn og söngbækur á prenti – . Snót, Harpa, Íslenzk söngbók, Fjárlögin, Tummakukku, Gamla brennivínsbókin o.fl.
- Íslensk kvæðahandrit – Sem geyma alþýðukveðskap og þjóðlög frá síðmiðöldum/lærdómsöld fram undir miðja 19. öld.
- Íslensku skáldin og þjóðlögin – Íslenskt skáldatal fyrri alda og þjóðlögin. Hér verða ljóð skáldanna birt í fullri lengd með íslenskum þjóðlögum og öðrum sönglögum sem rótgróin eru íslensku menningarlífi.
Kvæðin flokkast í eftirfarandi greinar:
- Afmorskvæði – Íslenskur síðmiðalda/lærdómsaldarkveðskapur þar sem karlar kveða ástaróð til kvenna líklegast á vökunóttum og skemmtisamkomum. Stundum eiga afmorskvæðin skylt við mansöngskvæði eða mansöngsvísur. Vísbendingar eru um að afmorskvæðin hafi verið sungin með öðrum danskvæðum. Höfundar afmorskvæðanna eru nær undantekingalaust óþekktir.
- Árstíðirnar – Vetur, sumar, vor og haust. Stórhátíðir, merkisviðburðir úr Íslandssögunni ofl. Dagatal.
- Ástarljóð – Íslensk ástarljóð með þjóðlögum eftir nafnkunn skáld eftir siðbreytingu. Þessi ástarljóð eru mun yngri heldur en afmorskvæðin og eru yfirleitt eftir nafnkunna höfunda.
- Ávarpsorð og bænir – Bænir og ávarpsorð, þau elstu úr kaþólskum sið.
- Barnagælur – Barnagælur með íslenskum þjóðlögum. Sumar barnagælur eru ævafornar og jafnvel þekktar annars staðar á Norðurlöndunum. Sumar barnagælur kunna að vera frá þjóðveldisöld, jafnvel eldri.
- Brúðkaupskvæði – Brúðkaupskvæði sem sungin voru í íslenskum brúðkaupum.
- Dansþulur – Þessar þulur hafa að öllum líkindum verið notaðar við einhvers konar dans fyrr á öldum. Heimildir um það skortir þó nokkuð.
- Druslur – Druslur eru veraldleg kvæði sem sungin voru undir sálmalögum, t.d. úr Grallaranum og víðar. Börn voru látin læra þessi sálmalög undir veraldlegum kveðskap á vökunóttum. Ekki máttu börnin nota sálmatextana sjálfa við þessar æfingar af ótta við að þau menguðu hið heilaga orð með ruglingi og ambögum. Druslur eru enn sungnar í samkomum, einkum í göngum og réttum á haustin. Druslukveðskapur var vinsælastur á Vesturlandi, einkum í uppsveitum Borgarfjarðar og Mýrasýslu.
- Drykkjuvísur – Íslenskar drykkjuvísur með þjóðlögum og öðrum lögum frá nágrannaríkjum. Elstu drykkjuvísurnar hér eru frá 17. öld.
- Dýravísur – Hani, krummi, hundur, svín. Kveðskapur um dýrin. Á mikið skylt við barnagælur og þulur.
- Eddukvæði og dróttkvæði – Hinn forni skáldskapur sem geymdist á vörum fólks á þjóðveldisöld og skrásettur af kristnu fólki líklega einhvern tímann á 12. og 13. öld. Elstu varðveittu handrit eddukvæðanna eru frá fyrri hluta 13. aldar. Nokkur íslensk þjóðlög hafa varðveist við þessa fornu edduhætti. Að minnsta kosti fjögur þjóðlög hafa varðveist við fornyrðislag (Völuspá, Grýlukvæði frá Austfjörðum, ein barnagæla og Saknaðarljóð eftir Jónas Hallgrímsson), a.m.k. tvö við dróttkvæðar vísur (Það mælti mín móðir, Sneið fyrir Sikiley víða) og tvö við ljóðahátt (Hávamál og Söknuður eftir Jónas Hallgrímsson).
- Erfiljóð – Eða stundum kölluð e f t i r m æ l i. Hér yrkja skáldin ljóð eftir hina burtsofnuðu, stundum eftir ástvini en stundum eftir pöntunum. Erfiljóðin voru afar vinsæll tækifæriskveðskapur áður fyrr.
- Formúluvísur/keðjukvæði – Þessi kveðskapur var líklega vinsæll á vökunóttum og á vikivökum fyrr á öldum en um það skortir þó heimildir. Í Færeyjum tíðkast a.m.k. að dansa formúluvísur og keðjukvæði á borð við þessar íslensku í kringum föstuinngang (bolludagur, sprengidagur og öskudagur), þ.e. fyrir lönguföstu.
- Galdur og forneskja – Galdur, ákvæðaskáld og annars konar forneskja. Mjög lítið hefur þó varðveist af galdri á Íslandi í tengslum við söng. Þó er gerð tilraun að gera því einhver skil hér, þar á meðal um ákvæðaskáldin.
- Grýlukvæði – Rammíslenskur kveðskapur um Grýlu og hyski hennar. Mörg íslensk þjóðlög hafa varðveist við þessi gömlu grýlukvæði (ath. að rita skal „grýlukvæði“ með litlum staf ef átt er við sjálfa kveðskapargreinina). Elstu varðveittu grýlukvæðin eru frá þjóðveldisöld og sum þeirra þekkjast meira að segja annars staðar á Norðurlöndunum.
- Heimsósómar – Heimsósómar frá 16. og 17. öld með íslenskum þjóðlögum. Barlómur skáldanna, yfirleitt menntaðra klerka, gagnvart samtímanum og lifnaðarháttum eyjaskeggja.
- Helgikvæði – Helgikvæði frá síðmiðöldum og lærdómsöld. Maríukvæði, meydýrlingakvæði, Lilja, Ljómur, Rósa o.fl. Athygli vekur að meydýrlingakvæðin nutu sérstakrar hylli og lifa sum enn á vörum þjóðarinnar.
- Hestavísur – Íslenskar hestavísur með þjóðlögum. Hestavísur voru afar vinsælar fyrr á öldum og flokkaðar því sérstaklega hér.
- Hræranlegar hátíðir – Kveðskapur, trúarlegur og veraldlegur, í tengslum við stærstu hátíð kirkjunnar. Föstuinngangur, bolludagur, sprengidagur, öskudagur, langafasta, föstudagurinn langi og páskar.
- Huldarmál og draugavísur – Kvæði ort af álfum, huldufólki og draugum. Nokkur íslensk þjóðlög hafa varðveist við þessi dularfullu kvæði.
- Húsgangar og lausavísur – Vísur og húsgangar undir rímnaháttum.
- Íslensk söguljóð – Andleg og veraldleg söguljóð (epísk) sem nutu mikilla vinsælda í baðstofum á vökunóttum. Athugið að þessi söguljóð, sem hér um ræðir, eru ekki rímur. Hér í raun ægir öllu saman og jafnvel verður þessi flokkur fjarlægður á næstunni.
- Íslensk þjóðkvæði – Íslenskum þjóðkvæðum á þessari síðu verður safnað saman hér. Þau tilheyra ýmsum flokkum, einkum barnagælum, grýlukvæðum,
vikivakakvæðum, sagnadönsum, sagnakvæðum og þulum. Hér eru birt öll þau kvæði sem eru höfundalaus og tilheyra flokki íslenskra þjóðkvæða. Rímur og heimsósómar tilheyra ekki íslenskum þjóðkvæðum þar sem höfundar eru yfirleitt tilgreindir.
- Jóladansar – Þessi jólakvæði eiga öll það sameiginlegt að hafa verið brúkuð við dans yfir jólahátíðina samkvæmt heimildum. Hér verða einnig birtir dansar sem tengjast Þorláksmessu og nýársnótt (álfadansar).
- Jólin – Kveðskapur um jólin, bæði andlegur og veraldlegur, með þjóðlögum og fornum sálmalögum. Sum lögin eru afar gömul og hafa lifað með þjóðinni fram á þennan dag.
- Kenniljóð – Fræðiljóð frá lærdómsöld. Mikil speki, t.d. úr dæmisögum Esóps og um jarðyrkju.
- Kveðskapur úr leikritum – Kvæði úr leikritum á borð við Skugga-Svein, Nýársnóttina o.fl. sem nutu fádæma vinsælda og fóru í dreifingu um allt land
- Kveðskapur úr pápísku – Kvæði fyrir siðaskiptin og þjóðlög við þau sem varðveist hafa.
- Kvæði úr þjóðsögum og ævintýrum – Þjóðsögur sem varðveita vísur með íslenskum þjóðlögum. Það vekur eftirtekt að einhvern tímann fyrr á öldum virtist það hafa verið hefð meðal sums kvæðafólks að tóna vísurnar úr þjóðsögunum. Slík lög hafa ekki fengið mikla athygli.
- Man-langlokur – Man-langlokur eru, eins og nafnið gefur til kynna, einhvers konar langlokur og ekki erindaskiptar. Þetta eru þó ekki þulur. Hér yrkja karlar ástaróð til kvenna og raula hann með tilbreytingarlausum lögum. Kveðskapur sem þessi virðist hafa verið vinsæll á 18. öld. Hann tengist nær undantekingalaust dansi og í einni gamalli heimild er þessi kveðskapur kallaður „vikivaki.“ Mögulega hafa man-langlokur því verið raulaðar „á vikivökum“.
- Rímur – Alíslenskur epískur kveðskapur um forna kappa og riddara sem var órjúfanlegur þáttur í íslensku menningarlífi frá miðöldum (14. öld) fram á miðja 20. öld. Rímurnar eru óumdeilanlega langfyrirferðamesta kveðskapargreinin á Íslandi og til eru u.þ.b. 1.050 rímnaflokkar í skinn- og pappírshandritum. Oft fjalla þær um efni úr riddarasögum, fornaldarsögum Norðurlanda og ævintýrum en síður úr Íslendingasögunum og konungasögunum. Rímur eru ortar undir sérstökum rímnaháttum (tilbrigðin skipta þúsundum!) og þær kveðnar með stemmum. Hver ríma innan rímnaflokks hefur mansöng (upprunalega ástaróður til kvenna). Rímurnar tilheyra ekki munnlegri hefð, heldur bóklegri, þ.e. þær voru skráðar á bók um leið og þær voru ortar. Rímnahefðinn lifir enn, þá helst fyrir tilstuðlan Kvæðamannafélags Iðunnar, og vísbendingar eru um að áhugi á rímum hafi aukist mjög undanfarin ár.
- Sagnadansar – Sagnadansar eru epísk miðaldadanskvæði frá Evrópu sem að öllum líkindum voru notuð hér á landi við hópdans, keðjudans eða hringdans fyrr á öldum. Beinar ritheimildir um að Íslendingar hafi notað þessi kvæði við dans skortir þó alveg, því miður, og sætir það furðu, því allt þykir benda til þess að þau hafi verið dönsuð. Stundum eru sagnadansar kallaðir vikivakar en ekki má þó rugla þeim saman við vikivakakvæði þar sem slík danskvæði eru lýrísk. Talið er að sagnadansahefðin hafi byrjað að mótast á 12. eða 13. öld. Sagnadansahefðin er samevrópskur kvæðaarfur og íslenskir sagnadansar eiga sér hliðstæður við aðra sagnadansa frá Norður-Evrópu og hinum Norðurlöndunum. Fá íslensk þjóðlög hafa varðveist við þessa sagnadansa en geysimörg í Færeyjum.
- Sagnakvæði – Sagnakvæði eru íslensk þjóðkvæði og ævintýrakvæði undir fornyrðislagi sem finnast í handritum frá seinni hluta 17. aldar og síðar. Þó er talið að kvæðin séu miklu eldri og hafa geymst á vörum fólks um aldir. Höfundar sagnakvæðanna eru óþekktir.
- Sálmar – Úrval íslenskra sálma frá lærdómsöld. Ógerningur er að birta sálmana alla hér enda eru þeir allir aðgengilegir á vefslóð Braga.
- Sjómannavísur – Vísur sem kveðnar voru í tengslum við sjósókn. Formannsvísur, sjómannavísur og fleira.
- Skólasöngvar – Þetta eru skólasöngvar sem sungnir voru í gömlu latínuskólunum (Skálholtsskóla, Hólaskóla og Bessastaðaskóla). Einnig Hólavallaskóla, Lærða skólanum, Hvítárbakkaskólanum í Borgarfirði o.fl.
- Tíðasöngurinn íslenski – Hinn forni íslenski tíðasöngur sem sunginn var í kirkjum á stórhátíðum á miðöldum til dýrðar íslenskum dýrlingum. Höfundur þessarar vefsíðu veit ekkert um tíðasöng en þó gert ráð fyrir því að hann eigi sér hliðstæður í evrópskum tíðasöng.
- Tröllaslagir – Kveðskapur trölla undir sérstökum tröllaháttum. Kynngimagnaður kveðskapur.
- Tvísöngvar – Séríslenskt afbrigði af tveggja radda söng þar sem sungið er í fimmundum og raddirnar krossast. Tvísöngshefðin er íslenskur menningararfur frá miðöldum sem á rætur að rekja til kirkjusöngs frá kaþólskri tíð. Elstu ritheimildir um tvísönginn eru frá 14. öld, í Lárentíus sögu biskups eftir Einar Hafliðason (f. 1307. d. 1393).
- Veislukvæði – Gömul veislukvæði sem sungin voru á samkomum á 19. öld og byrjun þeirrar 20, einkum á meðal stúdenta og borgarastéttarinnar í Reykjavík.
- Vikivakakvæði – Lýrísk danskvæði, frumort af Íslendingum (ólíkt sagnadönsum), sem sungin voru í gleðinni á vökunóttum, líklega samhliða sagnadönsum, afmorskvæðum, vikivakaleikjum og öðrum gamankveðskap. Talið er að vikivakakvæðin hafi lifað samhliða sagnadansahefðinni þó vera kunni að vikivakakvæðin séu ögn yngri kveðskapur. Stundum er fullyrt að gömlu lögin við vikivakakvæðin hafi glatast. Þó hefur höfundi þessarar vefsíðu tekist að finna tæplega fjölmörg íslensk þjóðlög við kvæði undir vikivakakvæðaháttum. Bragarháttur þessara kvæða er lengri og flóknari en í sagnadönsum. Þó eru kvæðin yfirleitt styttri heldur en sagnadansarnir. Vikivakakvæðin fjalla að mestu um tilfinningalíf fólks, ástir og ólifnað.
- Vikivakaleikir – Vikivakaleikir eru fornir dansleikir sem dansaðir voru á vökunóttum (vikivökum) á 16. 17. og 18. öld. Þessir leikir koma erlendis frá. Íslensk þjóðlög hafa varðveist við a.m.k. þrjá vikivakaleiki svo vitað sé. Það eru þjóðlög við Hoffinsleik, Frísakvæði og Giptingahjal.
- Vikivakar – Alls konar kvæði sem sungin hafa verið og dönsuð á „vikivökum“ samkvæmt heimildum. Hér er kvæðunum flokkað í 11 flokka: 1. Kvæði undir vikivakakvæðaháttum, 2. vikivakakvæði, 3. sagnadansar, 4. grýlukvæði, 5. dansþulur, 6. man-langlokur, 7. afmorskvæði, 8. kvæði úr Hundraðvísnabók Vedels, 9. ýkjukvæði, 10. kvæði eftir 18. aldar höfunda og 11. kvæði eftir 19. aldar höfunda.
- Ýkjukvæði – Ýkjukvæði voru vinsæll kveðskapur á Íslandi á síðmiðöldum og lærdómsöld. Hér verður gerð tilraun til þess gera þeim góð skil hér (enn sem komið er eru þau ekki mörg).
- Þorrablótskvæði – Þorrablótskvæði og önnur þorrakvæði sem sungin hafa verið á þorrablótum allt frá árinu 1862. Árni Björnsson þjóðfræðingur (f. 1932) hefur þegar birt allmörg þorrablótskvæði og sönglög þeirra í riti sínu „Þorrablót á Íslandi“. Hér verða þó birt enn fleiri kvæði með íslenskum þjóðlögum og öðrum sönglögum sem tengjast þorranum og þorrablótum.
- Þulur – Þulur eru íslensk þjóðkvæði, fleiri en sjö línur að lengd og ekki erindaskipt. Talið er að sumar þulur hafi geymst á vörum fólks, kynslóð eftir kynslóð, að minnsta kosti frá 15. öld. Íslenskar þulur eru af ýmsum toga. Til eru fjöldinn allur af nafnaþulum, særingaþulum, þulukvæðum (epískum) og ljóðaleikjum. Á síðari öldum hafa margar þulur orðið að barnagælum.
- Ættjarðarkvæði – 19. og 20. aldar óður til föðurlandsins og sálfstæðisbaráttan í algleymingi. Tengist mjög tíðaranda þess tíma.
- Viðlög – Kveðskapur með viðlögum
- Önnur danskvæði – Hér verður birtur kveðskapur síðari alda í tengslum við dans sem ekki fellur undir sagnadansa, jóladansa, vikivakakvæði, vikivakaleiki eða afmorskvæði. Þessi kvæði eiga þó það sameiginlegt að hafa verið notaðar við dans samkvæmt heimildum eða eru undir danskvæðum hætti. Mörg kvæðanna eru eftir nafngreind skáld en önnur eru höfundalaus. Sum kvæðin eru flökkukvæði frá Norðurlöndunum.
- Heimildarfólk um danskvæðin