(ATH Sjá einnig vikivakakvæði, vikivakaleiki, vikivaka,
sagnadansa, dansþulur og ástarljóð)
Afmorskvæði eru ástarkvæði frá 16. og 17. öld sem að öllum líkindum voru sungin við einhvers konar veraldlega gleði, jafnvel samhliða dansi (sagnadönsum, vikivakakvæðum og vikivakaleikjum). Vísbendingar eru um að afmorskvæðin hafi verið einhvers konar vikivakar, og jafnvel verið kallaðir slíkt þó heimildir skortir nokkuð, en síðar fengið umrætt heiti. Þessi afmorskvæði báru einnig heitið mansöngskvæði eða mansöngsvísur fyrr á öldum. Þessi kvæði gátu verið ansi klámfengin og stundum kölluðu kirkjunnar menn þau grófustu brunakvæði. Af þeim sökum vöktu þau enga hylli á meðal kirkjunnar hér á landi. Þá var Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskupi (f. 1542. d. 1625) sérstaklega í nöp við þennan kveðskap. Í formála að sálmabók sinni frá árinu 1589 (Guðbrandur Þorláksson, 1589, 13) segir Guðbrandur að hann hafi ákveðið að gefa hana út til þess að af mætti leggjast „þeir ónytsamlegu kveðlingar, trölla og fornmannarímur, mansöngvar, afmorsvísur, brunakvæði, háðs og hugmóðsvísur, og annar vondur og ljótur kveðskapur, klám, níð og kerskni, sem hér hjá alþýðufólki framar meir er elskað og iðkað, guði og hans englum til styggðar, djöflinum og hans árum til gleðskapar og þjónustu, en í nokkru kristnu landi öðru.“
Höfundar afmorskvæðanna eru í langflestum tilfellum óþekktir. Mörg afmorskvæði og þjóðlög við þau hafa varðveist í pappírshandritinu Melódíu sem ritað var um miðja 17. öld. Sum laganna úr handritinu skrifaði Bjarni Þorsteinsson upp, þá einkum úr kaflanum Jóns Ólafssonar tónum (Bjarni Þorsteinsson, 1906-1909, 206-315).
Afmorskvæði með íslenskum þjóðlögum. Sum þjóðlögin eru varðveitt í gömlum íslenskum tónlistarhandritum en önnur eru varðveittir lagboðar fengnir úr öðrum kvæðum á sama tímaskeiði (þ.e. 16. 17. og 18. öld):
- Amors bönd og byrði þung – Upphaf: „Amors bönd og byrði þung.“ Bls. 240 í BÞ. Nr. 68 í Melódíu
- Bóndans dóttirin – Upphaf: „Bóndans dóttirin/brúðurin amorlig.“ Bls. 241 í BÞ. Nr. 70 í Melódíu. Þetta kvæði er ekki varðveitt heilt. Hefur líklegast verið blautlegt kvæði
- Djákninn tók sér bók í hönd – Upphaf: „Djákninn tók sér bók í hönd/ og brátt að dyrunum vendi.“ Bls. 241 í BÞ. Nr. 69 í Melódíu. Kvæði með viðlagi. Líklega gamalt danskvæði frá síðmiðöldum
- Dögling og drottningen – Upphaf: „Dögling og drottningen/ dönsuðu’ í kompaní.“ Bls. 245 í BÞ. Nr. 80 í Melódíu. Líklega gamalt danskvæði frá síðmiðöldum
- Ef hýrt upp kviknar hjartans stig – Upphaf: „Ef hýrt upp kviknar hjartans stig/ hvað viltu þá segja við mig?“ Bls. 243 í BÞ. Nr. 74 í Melódíu.
- Ég ferðaðist yfir Rín – Upphaf: „Ég ferðaðist yfir Rín.“ Bls. 246 og 279 í BÞ. Nr. 82 í Melódíu.
- Göfug jómfrú, gráttu ei – Upphaf: „Göfug jómfrú, gráttu ei.“ Bls. 244 í BÞ. Nr. 76 í Melódíu.
- Hef ég upp háttinn ljóða – Upphaf: „Hef ég upp háttinn ljóða.“ Bls. 239 í BÞ. Nr. 66 í Melódíu.
- Heyr þú, sem huginn upplýsir – Upphaf: „Heyr þú, sem huginn upplýsir.“ Eftir síra Ólaf Jónsson á Söndum (f. 1560. d. 1627). Bls. 260-261 í BÞ. Nr. 108 í Melódíu. Kvæði með viðlagi og vikivakakvæði. Þetta lag hefur verið notað í gleðinni á vökunóttum. Kvæðið ber einnig heitið Níunda söngvísa til Christum.
- Jeg gekk mig udi grœnan lund – Upphaf: „Jeg gekk mig udi grœnan lund/ jeg achtede dýr að hede.“ Bls. 243 í BÞ. Líklega brot úr gömlu danskvæði frá Danmörku. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Jómfrú einni ég hefi skárst – Upphaf: „Jómfrú einni ég hefi skárst.“ Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Kom og próf, kom og próf – Upphaf: „Kom og próf, kom og próf.“ Bls. 244 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Kvinnan fróma, klædd með sóma – Höf. ókunnur.
- Kvæðis róm skal kyrja hér – Upphaf: „Kvæðis róm skal kyrja hér.“ Bls. 246 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Leitar mín í ljóðum frekt – Upphaf: „Leitar mín í ljóðum frekt.“ Afmorskvæði fengið úr pappírshandriti með ártalinu 1672. Kvæðið er undir sama bragarhætti og Brúðkaupskvæði Ólafs Indriðasonar frá Kolfreyjustað (f. 1796. d. 1861).
- Lofleg jómfrú, leyfðu mér – Upphaf: „Lofleg jómfrú, leyfðu mér.“ Höf. ókunnur. Textinn og lagið eru varðveitt í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Lundprúðust, ljúf og fín – Upphaf: „Lundprúðust, ljúf og fín.“ Bls. 245 í BÞ. Textinn og lagið eru varðveitt í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Lystugur, lystugur, lystugur skal eg nú – Upphaf: „Lystugur, lystugur, lystugur skal eg nú.“ Bls. 247 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Meyjan mektuglega – Upphaf: „Meyjan mektuglega.“ Bls. 242 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Móins síkja foldin fróm – Upphaf: „Móins síkja foldin fróm“ Bls. 248 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Norðrar gildi nistis hildi – Upphaf: „Norðrar gildi nistis hildi“ Bls. 248 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Ó jómfrú fín – Höf. ókunnur.
- Patientia er sögð urt – Upphaf: „Patientia er sögð urt.“ Bls. 240 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Ríkust faldafoldin fróm – Upphaf: „Ríkust faldafoldin fróm.“ Bls. 243 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Urtragarð eg hefi plantað – Upphaf: „Urtragarð eg hefi plantað.“ Bls. 245 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Vel er þeim vinskap bindur – Upphaf: „Vel er þeim vinskap bindur.“ Bls. 239 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.
- Vestfirðinga blómi – Upphaf: „Hér verður eitthvert ævintýr að rísa.“ Þetta afmorskvæði er varðveitt í handritinu AM 714 4to (16r-v) frá því um aldamótin 1600 (Jón Samsonarson II 1964:42). Kvæðið er undir sama bragarhætti og Tólfsonakvæði eftir Guðmund Bergþórsson (f. 1657. d. 1705).
- Yðar snilld og hefðar hátt – Upphaf: „Yðar snilld og hefðar hátt.“ Bls. 242 í BÞ. Textinn og lagboðinn er varðveittur í tónlistarhandritinu Melódíu.

