Sagnadansar

(ATH Sjá einnig vikivakakvæðivikivakaleikivikivaka,
afmorskvæði og Hundraðvísnabók Vedels)

Kynning

Sagnadansar
 (einnig kallaðir íslensk fornkvæði) (e. ballads) eru epísk miðaldadanskvæði frá Evrópu sem að öllum líkindum voru notuð hér á landi við hópdans, keðjudans eða hringdans fyrr á öldum. Sagnadansar urðu afar vinsælir á Norðurlöndunum og lifa enn góðu lífi í Færeyjum. Í Færeyjum kallast sagnadansar einfaldlega „kvæði“. Á Íslandi voru sagnadansar líklegast sungnir við vikivaka sem hefur verið hringdans, líklega svipaður færeyska hringdansinum eða „carole“ (hringdansi) Englendinga á 15. öld. En um þetta er margt óljóst og engar beinar íslenskar heimildir til sem styðja þetta. Ekki má rugla sagnadönsum saman við vikivakakvæði þar sem slík danskvæði eru lýrísk. Höfundar sagnadansanna eru nær undantekningalaust óþekktir en þeir eiga sér hliðstæður  við önnur danskvæði á Norðurlöndunum, Frakklandi, Bretlandi og víðar.

Varðveittir sagnadansar á Íslandi eru u.þ.b. 110 talsins og fjallaði Vésteinn Ólason, prófessor í íslenskum bókmenntum, um þá flesta í doktorsritgerð sinni sem hann varði árið 1982. Einstakir sagnadansar teljast séríslenskir og má sem dæmi nefna Kvæði af Gunnari á Hlíðarenda og Tristrams kvæði. Vinsælasti sagnadansinn hér á landi er þó vafalaust Kvæði af Ólafi liljurós.

Hefð fyrir flutningi sagnadansa er að mestu horfin úr íslensku menningarlífi, þótt þjóðlagasöngvarar eigi það til að flytja eitt og eitt kvæði á tónleikum. Rík ástæða er til þess að halda áfram rannsóknum á þessu efni svo að fólk fái góðan aðgang að arfi fyrri alda og þekki hann.

Uppruni

Sagnadansahefðin er samevrópskur kvæðaarfur. Talið er að uppruna hennar sé að finna í Vestur-Evrópu og kölluðu Frakkar þessi kvæði „ballade“. Hvenær þessi kvæðagrein verður til í Evrópu er óljóst en að öllum líkindum kemur hún fram sem stormsveipur í evrópskt menningarlíf á miðöldum á 12.–14. öld. Þó er mjög erfitt að áætla hvenær sagnadansar voru fyrst ortir, líkt og bent hefur verið á. Þá er talið að kvæðin hafi borist til Norðurlanda og fest þar rætur á 13. og 14. öld. Á þessum tíma berast fyrstu sagnadansarnir til Íslands, þá m.a. í gegnum hafnarborgina Björgvin, en Noregur var helsta verslunarþjóð Íslendinga fyrir siðaskiptin. Eftir siðaskiptim, árið 1550, rofna viðskiptatengslin á milli Íslands og Noregs nær að öllu leyti. Danir tóku við keflinu sem helstu viðskiptaaðilar Íslendinga og dönsk menningarumsvif hér á landi jukust. Þar með eru flestir sagnadansar, sem berast til Íslands eftir 1550, komnir frá Danmörku.

Íslendingar kynntust sagnadönsum fyrst á kaþólskum tíma. Líklega koma þeir flestir hingað til lands eftir 1500 en sagnaminni þessara sagnadansa eiga sér þó enn eldri rætur. Íslendingar fóru þó ekki að skrifa þá skipulega niður fyrr en á seinni hluta 17. aldar og voru dansarnir því hluti af munnlegri hefð í tæpar tvær aldir, bárust mann fram að manni áður en þeir voru skrásettir. Greinilegt er að sagnadansar varðveittust lengi í munnlegri geymd – og meira að segja alveg fram á 21. öld. Þá kunnu einstakir heimildarmenn, og konur sérstaklega, að syngja sagnadansa með sérstökum sagnadansalögum um miðja 20. öld samkvæmt söfnurum á vegum Árnastofnunar.

Varðveisla sagnadansa á Íslandi

Ekki var byrjað að skrásetja sagnadansa hér á landi fyrr en á síðari hluta 17. aldar. Kvæðabók séra Gissurar Sveinssonar (AM 147 8vo), nú geymt í Árnasafni í Reykjavík, er þeirra mikilvægast og elsta handritið sem geymir íslenska sagnadansa. AM 153 8voII er brot úr handriti Kristínar Magnúsdóttur (1672-1712) en í því handriti eru geymd hvorki meira né minna en 183 kvæði. Þá má einnig nefna handritið JS 405 4to, fornkvæðabók Gísla Ívarssonar.

Þegar hugað er að varðveislu íslenskra sagnadansa má ekki síst gleyma þrekvirki þjóðfræðinga Árnastofnunar um miðja síðustu öld. Ekki var byrjað að taka viðtöl við Íslendinga um sagnadansahefðina fyrr en á 6. áratug síðustu aldar.

Form sagnadansa og einkenni

Sagnadansar eru danskvæði sem flokkast undir epískan skáldskap þar sem þeir segja ákveðna sögu, líkt og íslenskar rímur. Þó eru sagnadansar ólíkir rímum að því leyti, að bragformið, stuðlar og rím er afar frjálslegt í sagnadönsum, ólíkt rímum. Þá hafa sagnadansar nær ávallt ákveðin viðlög eða stef sem eru endurtekin aftur og aftur. Dansarnir eru einnig tiltölulega stuttir og hnitmiðaðir, ólíkt rímunum, og hefjast þeir yfirleitt í miðri frásögn og vantar því iðulega víðara samhengi.

Efnisflokkar sagnadansa á Íslandi

Sagnaefni sagnadansa á Íslandi varðar oft ástir og samskipti kynjanna. Þá voru kvæði af riddurum og frúm sérstaklega vinsæl hér á landi en mun minna er til af svokölluðu kappakvæðum. Talið er að sögur af köppum hafi mun fremur fallið undir hatt rímna hér á landi, ólíkt því sem gerðist í Færeyjum. Þar eru þau geysimörg og má þar t.d. nefna Orminn langa, sem Færeyingar dansa á Ólafsvöku, og Regin smið.

Sagnadansar eru ein af fimm tegundum íslenskra þjóðkvæða ásamt vikivökum, þulum, sagnakvæðum og barnagælum. Vésteinn Ólason kýs að flokka kvæðin í eftirfarandi flokka. Benda skal á, að þessi flokkun er ekki algild líkt og bent hefur verið á:

1.  Kvæði af riddurum og frúm

2.  Kvæði af köppum og helgum mönnum

3.  Gamankvæði

Kvæði um riddara og frúr eru langvinsælasta sagnaefnið á Íslandi en sáralítið er til af kappakvæðum, ólíkt því sem varð í Færeyjum en þar er til ofgnótt af sagnadönsum um kappa frá Norðurlöndunum. Má sem dæmi nefna Orminn langa og Regin smið

Þjóðlög við sagnadansa á Íslandi

Íslensk þjóðlög hafa varðveist við nokkra íslenska sagnadansa, bæði á prenti og á segulböndum. Nokkur sagnadansalög birti Bjarni Þorsteinsson, prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari, í riti sínu Íslenzkum þjóðlögum.

Sagnadansar lifðu enn á vörum örfárra Íslendinga til sveita um miðja 20. öld þegar þjóðfræðingar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar ferðuðust um landið með segulbandstæki, sem þá var nýjung. Segulböndin eru nú varðveitt á stofnuninni en á þeim eru m.a. varðveitt tóndæmi einstakra heimildarmanna. Dæmi um sagnadansa og sagnadansalög sem lifðu enn á vörum fólks um miðja 20. öld, samkvæmt þessum heimildum, má nefna ÁsukvæðiDraumkvæðiHarmabótarkvæðiHúfukvæðiKonuríki (Það var eina jólanótt/vökunótt), Kvæði af Ólafi liljurósPilturinn og stúlkanPrestkonu kvæðiSvíalín og hrafninnTófukvæðiVallarakvæði systrabana (Systra þula) ofl.

Síðan má ekki gleyma mörgum grýlukvæðumbarnafælum og barnagælum sem sum hver eru undir sagnadansabragarháttum, t.d. Grýlukvæði eftir síra Stefán Ólafsson í Vallanesi (f. 1619. d. 1688), Andrésardiktur (höf. ókunnur) og Ókindakvæði (höf. ókunnur). (Sjá umfjöllun hér neðar um kvæði á borð við þessi).

Í byrjun og um miðja 20. öld voru gerðar tilraunir til þess að endurvekja nokkra sagnadansa með gömlum íslenskum og öðrum norrænum þjóðlögum sem komu annars staðar frá, þar á meðal úr gömlum tónlistarhandritum (þ.á.m. Melodiu og ritverki Thomas Laubs: Danske Folkeviser med gamle Melodier). Þar var fremstur í flokki Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari. Dæmi um slíka sagnadansa, sem reynt var að endurvekja á þessum tíma, voru ÁsudansElja kvæðiGunnhildar kvæðiÓlöfar kvæði, Soffíu kvæði, Taflkvæði ofl.

Bragarhættir sagnadansa

Bragarhættir sagnadansa skiptast í tvo meginflokka, braghendu og iðurmælt. Sagnadansar undir iðurmæltum hætti einkennast af miklum endurtekningum þar sem seinni helmingur fyrra erindis er oft endurtekinn í næsta erindi. 

Allir þeir íslensku sagnadansar undir iðurmæltum hætti eru sem hér segir: Kvæði af Stíg og Regisu (ÍFk. 8)Stafrós kvæði (ÍFk. 9)Kvæði af Sigmundi (ÍFk. 10 og 69)Kvæði af Rögnvaldi og Gunnhildi (ÍFk. 12), Kvæði af herra Pétri og Ásbirni (ÍFk. 20)Málfríðar kvæði (ÍFk. 24)Taflkvæði (ÍFk. 38)Kvæði af frúnni Kristínu (ÍFk. 54)Kvæði af Nikulási (ÍFk. 44), Gunnlaugs kvæði (ÍFk. 63), Bóthildar kvæði (ÍFk. 65)Ingu kvæði (ÍFk. 66)Kvæði af Elenu og Andrési Stígssyni (ÍFk. 67) og Þjófa kvæði (Nr. 85).